144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

rammaáætlun og kjarasamningar.

[10:42]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er frekar dapurt að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sé hér einhver fýlukall af því að honum líkar ekki það sem sagt er í pontu af hálfu stjórnarandstöðunnar. Ég held hann ætti frekar að flytja okkur einhverjar upplýsingar um það hvenær von er á frumvörpum um afnám hafta sem hann er búinn að boða hér afskaplega lengi að komi eftir örfáa daga. Það væri æskilegt.

Hæstv. menntamálaráðherra, eins og hér var sagt áðan, hefur séð til þess að það molnar undan framhaldsskólakerfinu á meðan við stöndum hér og ræðum um rammaáætlun.

Það er ekki málið að við þurfum að stífla og bora meira. Við þurfum að gæta hagsmuna fólksins í landinu og komandi kynslóða, framtíðarfólksins okkar. Það er okkar barátta. Það er baráttan fyrir náttúrunni sem okkur ber að standa vörð um. Hæstv. ríkisstjórn virðist ekki hafa áhuga á því heldur vill hún bara bora, stífla og virkja sem mest af því að það á að skapa framtíðartekjurnar. Þær eru núna um 1% af þjóðartekjum.