144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

rammaáætlun og kjarasamningar.

[10:44]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er til margvíslegs ógagns hvernig staðið er að fundarstjórn og staðið er fyrir nauðsynjalausum fundahöldum fram á nætur. Ég harma það sérstaklega að jafn ágæt ræða og hv. þm. Willum Þór Þórsson flutti hér við umræðuna, málefnaleg og góð, af hálfu Framsóknarflokksins, skuli hafa verið flutt hér í nótt þegar nær engir voru eftir í húsinu og fáir sem gátu fylgst með af þeim sem heima sitja.

Ég legg það til við virðulegan forseta að hann gefi hv. þingmanni færi á að komast á ný á mælendaskrá og flytja mál sitt hér í dagsbirtu því að að ég held að það sé gott innlegg um skynsamleg vinnubrögð og sátt í þessu máli eins og við höfum heyrt frá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, sem hefur lagt til að málið gangi til nefndar, og hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni, sem brýnir nú mjög félaga sína í Sjálfstæðisflokknum (Forseti hringir.) að hætta þessu og ganga ekki svo nærri virðingu Alþingis sem þeir hafa kosið að gera.