144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiddum atkvæði um sambærilega tillögu í gær og þar kom vilji meiri hluta þingsins vel fram. Ef ég man rétt þá munaði um tíu, tólf atkvæðum á milli þeirra sem vildu að málið væri á dagskrá og þeirra sem vildu að það færi af dagskrá. Það er auðvitað ekki hugsað til neins annars en að tefja þingstörfin að láta greiða um þetta atkvæði aftur. Ég ætla að segja eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson gerði í gær: Við vitum hvernig þessi atkvæðagreiðsla fer. Þeir sem greiddu atkvæði með því að málið væri áfram á dagskrá eru líklegir til að gera það áfram og þeir sem vilja að málið fari af dagskrá munu greiða atkvæði með því að það fari af dagskrá og það mun örugglega vera þannig að þeir sem eru í stjórnarmeirihlutanum munu styðja að málið sé á dagskrá o.s.frv.

Má ég ekki bara biðja um það að menn hleypi málinu í efnislega umræðu hér og hætti þessum látaleik að vera að tefja þingstörfin með atkvæðagreiðslum, umræðum um fundarstjórn forseta o.s.frv.? Það þarf að taka efnislega afstöðu í málinu sem er undir og þetta hefur ekkert með kjaraviðræður að gera, (Gripið fram í.) það hefur ekkert með kjaraviðræður að gera sem við erum að ræða hér í dag. [Frammíköll í þingsal.]