144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:54]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mér finnst hæstv. fjármálaráðherra vera að misskilja þetta, það er ekki verið að reyna að tefja þingstörf. Þetta eru ekki einhverjir tafaleikir sem verið er að spila hérna, eitthvert málþóf út í loftið. (Gripið fram í.) Nei, þetta er það ekki. Ég og fleiri hér erum algerlega á móti því, og ætlum að láta það í ljós hvað eftir annað, að breytingartillaga frá meiri hluta atvinnuveganefndar, á skjön við faglegt mat, á skjön við löglegt ferli um það hvernig ákveða eigi virkjanir á Íslandi, sé rædd hér. Og ég mun koma upp og mótmæla því, sem er minn réttur, hvað eftir annað.

Það er ekki vilji minn að tefja fyrir þingstörfum. Það er forseti Alþingis sem hefur ákveðið að setja þetta á dagskrá og ég mundi vilja að við greiddum atkvæði um það hér á hverjum degi, ef hann ákveður að setja þetta á dagskrá, vegna þess að mér finnst það algert lögbrot að þetta sé á dagskrá, að þetta sé lagt fram.

Hugsið þetta aðeins. Það er verið að meta það annars staðar, í löglegu ferli, í verkefnisstjórn um rammaáætlun, hvort það eigi að virkja á þessum stöðum. Við þurfum ekki og eigum ekki að ræða þetta hér.