144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:55]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þessi atkvæðagreiðsla er náttúrlega bara til að gefa mönnum tækifæri til þess að vilji þingsins komi þá skýrt fram af því að forseti vill fá þetta mál á dagskrá. Þá spyrjum við þingið. Forseti er ekki alveg 100% alráður um dagskrána. Þetta er eina tækifærið sem þingmenn hafa. Þetta er því það sem við erum að gera.

Það er öllum ljóst hvers vegna við viljum fá þetta mál á dagskrá. Það er náttúrlega bara stál í stál, auðvitað er það þannig, en það er hægt að höggva á hnútinn. Við höfum aftur á móti ekki það tæki að landsmenn geti höggvið á þennan hnút, að hægt sé að vísa þessu bara til þjóðarinnar. Þjóðin mundi bara segja nei. Þá mundu menn þurfa að fara svolítið varlegar í þetta ferli. Ég er ekki viss um að þjóðin mundi endanlega hafna þessum kostum. En það er ekki meiri hlutinn í samfélaginu sem ræður í þessu máli, það er meiri hlutinn á þinginu, ekki meiri hlutinn úti í samfélaginu, við vitum það ekki. Það vitum við ekki fyrr en við fáum ákvæði í stjórnarskrá um að minni hluti landsmanna, kannski 10%, geti kallað mál til sín sem þingið hefur samþykkt. Þá væri ég tilbúinn að taka málþófsréttinn af þingmönnum því að þá væri það þjóðin sem gæti stoppað þingið. Það væri langbest. En þetta er það eina sem stendur til boða í dag og það er líka í boði að níu þingmenn geta kallað eftir því að umræðu sé lokið, þið getið beitt því. Ekki láta því eins og þið hafið ekkert í höndunum. Þetta er náttúrlega bara léleg pólitík.