144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:57]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er mjög slæmt á þessum fallega degi að hæstv. fjármálaráðherra sé fúllyndið uppmálað. Maður hefði nú haldið að hann kæmi hingað glaður í bragði og reyndi að leggja eitthvað gott til málanna. En við leggjum fram þessa dagskrártillögu aftur nú vegna þess að við treystum því að þingmenn endurmeti sífellt afstöðu sína í ljósi nýrra upplýsinga. Og smátt og smátt styttist í að menn skilji hlutverk rammaáætlunar. Það er nú tilgangurinn. Þess vegna eigum við auðvitað að ræða mál eins og alvarlega stöðu á vinnumarkaði.

Í atvinnuveganefnd í morgun var alvarleg staða vinnumarkaðarins rædd, áhyggjur af stöðunni og nauðsyn þess að aðilar nái saman svo afleiðingarnar verði ekki mjög erfiðar fyrir þá sem í hlut eiga. Ég held að hæstv. ráðherrar ættu að fara að beita sér í því máli í stað þess að láta eins og þau mál komi þeim ekkert við og hamast í svona máli sem á ekkert erindi hingað inn á þing.