144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:03]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér er aftur flutt dagskrártillaga til að reyna að breyta dagskrá þingsins. Það er þyngra en tárum taki þegar hæstv. fjármálaráðherra segir: Það þarf engar atkvæðagreiðslur. Það er búið að ákveða þetta allt.

Hér er meiri hluti og hann segir: Hunskist þið bara heim, við skulum ákveða þetta. Hvað heitir það í öðrum löndum? Það heitir einræði. (Gripið fram í: Lýðræði.) — Lýðræði að ákveða allt og kúga minni hlutann? Fylgist þið nú með umræðum í Evrópuráðinu og fylgist með athugasemdum við íslenskar kosningar og annað þar sem styrkleiki lýðræðissamfélags felst í stöðu stjórnarandstöðu.

Kannski er hæstv. fjármálaráðherra vorkunn. Auðvitað vill hann ekki ræða þessar kjaradeilur, hann er ekki að gera nokkurn skapaðan hlut til að leysa þær. Það er áhyggjuefni. En ég ætla að benda hæstv. ráðherrum á að hér voru atkvæðagreiðsla og umræður í gær. Það eru tíu ráðherrar í ríkisstjórninni og þar af eru níu með atkvæðisrétt. Það voru aðeins þrír sem tóku þátt í umræðunni — og greiddu atkvæði, hinir hafa verið að þvælast út um heim en eru loksins komnir í hús. Við skulum bara sjá hvað þeir gera í atkvæðagreiðslunni.