144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:08]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu segi ég nei við þessari tillögu eins og alla undanfarna daga. Þetta er farið að minna mann svolítið á atkvæðagreiðslurnar hjá Evrópusambandinu, tillögurnar eru lagðar fram aftur og aftur og það er kosið um þær aftur og aftur uns rétt niðurstaða fæst. (Gripið fram í: Akkúrat.)

Virðulegi forseti. Í þessari atkvæðagreiðslu og um þetta mál verður engin niðurstaða sem stjórnarandstaðan sættir sig við eða að hún hafi sigur í þessu dagskrárbreytingarmáli. Það er því með ólíkindum að á hverjum vinnudegi skuli þessi gamla, slitna tillaga koma hér í atkvæðagreiðslu fyrir þingið, sérstaklega af því að öll stjórnarandstaðan á fulltrúa á fundum með forseta þingsins og fulltrúum þingflokka og í forsætisnefnd þar sem dagskráin er ákveðin. (Forseti hringir.) Hér er verið að færa þá fundi inn í þingsal. Það gengur ekki lengur, forseti.