144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:16]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Mér þykir vænt um að það er vitnað í mín orð um þingsköpin. Ég hef styrkst í þeirri skoðun minni að á þingsköpum þurfi að gera róttækar breytingar. Ég tel til dæmis mjög mikilvægt að minni hlutinn á þingi fái málskotsrétt þannig að hægt sé að koma málum hérna í einhvern annan farveg en þennan.

Ég hef margítrekað komið hérna upp til að ræða fundarstjórn forseta til að reyna að fá svör við spurningum sem eru í mínum huga um málsmeðferð á þinginu en hef ekki fengið þau. Ég hef komið með ýmsar tillögur um það hvernig væri hægt að taka öðruvísi á þessu máli. Því er svarað með þögninni. Eitt af því sem ég hef farið fram á, hv. þm. Jón Gunnarsson, ef þú ert hérna einhvers staðar, er það að við mundum einmitt setjast niður og fara yfir hin lögfræðilegu álitamál sem hér blasa við. Ég hef haldið því fram að hér sé verið að fara á skjön við lögin.

En um hvað snýst þessi atkvæðagreiðsla í mínum huga? Hún snýst um það að til er foss sem heitir Urriðafoss og er í neðri hluta Þjórsár. Það eru ýmis stór álitamál (Forseti hringir.) uppi um það hvort laxastofninn sem þar er muni lifa virkjanir af. Ég vil láta náttúruna njóta vafans. Um það stóra hugsjónamál snýst þessi atkvæðagreiðsla núna. Hún snýst um það en ekki það að tefja þingið. Á náttúran að njóta vafans eða ekki? Spyrjið ykkur að þessu. (Gripið fram í.)