144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:49]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. síðasta ræðumanni en mig langar til þess í ljósi þess hvað liggur undir beiðni okkar um breytta dagskrártilhögun að velta því upp sem kona í fjárlaganefnd hvar í ósköpunum verðmætamatið er hjá hæstv. ríkisstjórn. Hvað kosta verkföllin nú þegar í heilsu fólks og í fjármagni til handa öllum velferðarstofnunum, m.a. í ljósi þess að geislafræðingar og fleiri hafa verið í löngu verkfalli?

Samfélagslegi kostnaðurinn er að verða ómetanlegur og miklu meiri en nokkurn tíma arðurinn sem hv. þingmenn í meiri hluta atvinnuveganefndar fá nokkurn tíma út úr þeim virkjunarkostum sem þeir vilja leggja til að verði settir í nýtingarflokk.