144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

lengd þingfundar.

[12:02]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það mun ekki flýta þessu máli að lengja þingfundi, umræðunni mun ekki ljúka fyrr, henni mun ekkert ljúka. Svo einfalt er málið. En menn geta gert svo sem hvað sem þeir vilja. Ég er ekki að biðjast undan því að standa þessa vakt.

Ég ætla aðeins að benda á til dæmis mál nr. 4, það er mál sem kom hingað inn í þingið hryllilega illa unnið. Það var sent til baka, það var lagfært og er að koma inn aftur. Við erum tilbúin að fara í þá afgreiðslu. Og ef við gegnum ekki því hlutverki að vara við þegar menn eru að vaða í fúapyttinn og ætla bara að segja: Við ætlum að fara á valdinu, við ætlum að fara á kröftunum, við ætlum að drífa þetta áfram og jafnvel að forgangsraða með þessum hætti, en koma svo með það sem er að koma hér, sem er frestun á gildistöku náttúruverndarlaga, aftur þegar heilt ár er liðið og menn hafa ekki getað náð að afgreiða málið. Er hægt að fá skýrari skilaboð um náttúruvernd? Náttúruverndarlögin nýju eiga að bíða, það á ekkert að laga þau en það á að djöflast áfram í virkjunum. Er ekki ástæða til að ræða þetta þá almennilega fyrst menn vilja það, en ég tel ekki ástæðu til að gera það á nóttinni. Það er eins gott að við gerum það í dagsbirtu.