144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

lengd þingfundar.

[12:07]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vona að hæstv. forseti láti ekki þingmenn í hliðarsölum egna sig að nýju til að ráðast á bjölluna undir máli mínu þar sem hæstv. forseti gerir augljósan mannamun í því hverjir fá þann heiður.

Virðulegi forseti. Á lengdum þingfundi í kvöld ætla menn að halda áfram að ræða það sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur kallað sniðgöngu við lög. Rökstyð ég þá fullyrðingu, með leyfi forseta, með orðum þeirra sjálfra:

„Það er því mat umhverfis- og auðlindaráðuneytisins að lög nr. 48/2011 geri ekki ráð fyrir að Alþingi geti gert breytingu á flokkun þessara kosta þar sem lögbundið ferli verndar- og orkunýtingaráætlunar hefur ekki farið fram hvað það varðar.“

Svo mörg eru þau orð. Um þetta mál telur forseti eðlilegt að kalla til þingfundar inn í nóttina. Það er eðlilegt að menn velti því fyrir sér hvers vegna það er gert. Það er vegna þess að menn ætla að sniðganga lög í skjóli nætur af því að þetta þolir ekki dagsbirtu.