144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

lengd þingfundar.

[12:16]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég geri eins og hinir sem hafa talað og ítreka beiðni mína um að forseti beiti í það minnsta ekki þeirri heimild sem hann fær væntanlega á eftir og um að sýnd séu samræðu- og samvinnustjórnmál, eins og sáttmáli ríkisstjórnarinnar ber með sér.

Mig langar til að varpa einni spurningu til hæstv. forseta sem varðar viðveru ráðherra við umræðuna. Nú liggur fyrir að umhverfisráðherra er forfallaður og því langar mig að spyrja hver fylgir þessu máli áfram úr hlaði fyrir hæstv. ríkisstjórn. Málið virðist vera þeirra aðalmál og er afar mikilvægt að við getum átt málefnalegar samræður við forkólfa ríkisstjórnarinnar sem leggja svo brýna áherslu á málið sem raun ber vitni. Mig langar til að spyrja hvort forseti geri ráð fyrir því að einhver ráðherra verði viðstaddur umræðuna.