144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

lengd þingfundar.

[12:17]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vil skora á hæstv. forseta að funda með formönnum stjórnmálaflokkana og fara yfir það hvort við getum ekki sameinast um þau markmið sem ríkisstjórnin setti sér, sem eru svohljóðandi, með leyfi forseta.

„Ríkisstjórnin mun leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið.“

Það væri æskilegt að við værum að vinna að því og við heitum stuðningi okkar við það, stjórnarandstaðan, en til þess þarf að fjalla um málið. Og það væri ekki verra ef menn ræddu á sama fundi annað ákvæði í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar sem er, með leyfi forseta:

„Unnið verður að víðtækri sátt við aðila vinnumarkaðarins um þróun vinnumarkaðar og uppbyggingu til framtíðar.“

Þetta er það sem við erum að biðja um. En stærsta vandamálið virðist vera það að ef okkur dettur í hug að styðja ríkisstjórnina í nokkrum sköpuðum hlut hleypur hún undan. (Forseti hringir.) Það er engin þörf á kvöldfundi til að hraða málum í þinginu. Það er þörf á fundum til að leita sátta um mál. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)