144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

um fundarstjórn.

[12:25]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða fundarstjórn forseta sem snýr að því að mér finnst ekki í lagi hvernig hæstv. forseti velur hvenær hann tekur bjölluna í sínar hendur og slær í hana viðstöðulaust. Það er ekki hægt að gera það þannig, þegar einhver stemning myndast hér í hliðarsölum fyrir því að púa einhvern ræðumann niður, að velja þá tímann með félögum sínum til að fara að lemja í bjölluna. Mér finnst það ekki viðeigandi. Annaðhvort fylgir forseti reglunum, sömu viðmiðunarreglum við alla eða engan.

Það var einfaldlega þannig að ég var að flytja mitt mál um atkvæðagreiðsluna og gefa atkvæðaskýringu og rökstuddi það með vísan í umræður um málið sem er á dagskrá. Það var fullkomlega óviðeigandi af forseta að gefa mér ekki færi á því að halda ræðuna heldur standa hér fyrir aftan mig lemjandi óhóflega í bjölluna. Þetta verð ég að segja vegna þess að mér fannst illa að mér vegið í þeirri umræðu.