144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

um fundarstjórn.

[12:29]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég get vitnað um það sem formaður þingflokks að forseti hefur leitast við að gegna hlutverki sínu sem forseti alls þingsins og allra þingmanna en öllum geta orðið á mistök. Það er óhjákvæmilegt að gera athugasemdir við það að forseti skyldi beita bjöllunni undir liðnum um atkvæðagreiðslu þegar þingmaður var að sækja sér efnislegar röksemdir í umræðu til að rökstyðja það hvers vegna hann legðist gegn þeirri tillögu sem væri að koma til atkvæða.

Það hefur mér vitanlega aldrei verið neinn ágreiningur um það að þingmenn geti sótt sér efnislegar röksemdir til að rökstyðja það hvers vegna þeir leggjast með einhverjum hætti í atkvæðagreiðslur. Ég veit ekki til að forsetar hafi takmarkað þær málheimildir þingmanna fyrr og finnst eðlilegast eins og málum er háttað að beðist sé velvirðingar á því að þetta hafi gerst. Það getur margt gerst hér í hita leiksins, einkum þegar staðan er eins og hún er hjá okkur í dag.