144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

um fundarstjórn.

[12:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka virðulegum forseta fyrir viðbrögð hans við því sem ég sagði áðan. Mér þykir virðulegi forseti bregðast rétt við, ólíkt hæstv. fjármálaráðherra sem bregst einfaldlega við með því að verða móðgaður og eiginlega hneykslaður á því að einhver skuli gagnrýna vinnubrögð virðulegs forseta, hvort sem þau eru byggð á mistökum eða vegna þess að hann er í tilteknum flokki eða hvað. Það er engin árás á forsetann. Það sem ég sagði í ræðu minni var fullkomlega málefnaleg ábending um það hvernig Alþingi virkar. Það er eitthvað sem ég hef kvartað mikið undan, að við tökum ekki nógu mikið til umfjöllunar. Það er engin aðför að þeim virðulega forseta sem situr nú. Það er engin aðför að embættinu. Það er aðeins ábending um það hvernig hlutirnir virka og á meðan þeir virka svona hefur það þann galla að virðulegi forseti þarf að sitja undir hugsanlegri gagnrýni af þeim sökum. Virðulegur forseti bregst rétt við og í raun og veru leiðréttir hæstv. ráðherra. Það er ekkert hneykslanlegt við það sem var sagt hér.