144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

kjarasamningar og misskipting eigna í samfélaginu.

[12:53]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í fréttum í gær var áhugavert viðtal við ríkissáttasemjara, Magnús Pétursson, þar sem hann benti á að stór deilumál í samfélaginu hefðu áhrif á kjaraviðræður. Hann nefndi átök meðal annars um skiptingu auðlindanna, skiptingu arðsins af auðlindunum, átök og ágreining milli hópa, þ.e. hvað varðar það að fólk teldi ýmsa hópa betur setta en aðra þannig að það væri ágreiningur um fjölmargt í samfélaginu, sagði ríkissáttasemjari. Með leyfi forseta vitna ég í hann: „… sem ég er alveg sannfærður um að hefur áhrif á stöðu kjaraviðræðna …“

Hæstv. ráðherrar, forustumenn stjórnarflokkanna, hafa ítrekað talað fyrir því að það sé ekki ríkisstjórnarinnar að koma að kjarasamningum þó að að sjálfsögðu sé ríkið einn af aðalviðsemjendunum í þeim kjaradeilum sem standa yfir við BHM. Það eru þau sjónarmið sem hafa heyrst. Hæstv. fjármálaráðherra hefur líka látið hafa það eftir sér að jafnvel sé jöfnuður orðinn of mikill í samfélaginu og það geti verið vandamál inn í þessar kjaradeilur.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvað hann telji um þessi orð ríkissáttasemjara sem segir í raun að það séu hin pólitísku átök sem snúast um auðlindirnar. Ég get bara þýtt það á mannamál: Það snýst um veiðigjöldin og lækkun þeirra, það snýst um orkuskattinn, það snýst um það hvernig við tökum gjald af þeim sem nýta auðlindirnar, hvernig við skilum því til almennings. Hæstv. fjármálaráðherra birti grein í gær, sem mér fannst mjög jákvæð, þar sem hann talaði fyrir stjórnarskrárbreytingu um sameiginlegt auðlindaákvæði. En til að slíkt ákvæði sé virt í raun skiptir máli að almenningur njóti arðsins af þessum auðlindum. Þegar ríkissáttasemjari setur þessi sjónarmið fram, annars vegar að hér séu uppi stórpólitísk átök um auðlindirnar í landinu og hins vegar um ójöfnuð í samfélaginu, sem er vissulega þegar við lítum á eignastöðuna í samfélaginu þar sem ríkustu 10% eiga 70% eignunum, að það sé undirliggjandi, telur þá ekki hæstv. ráðherra rétt (Forseti hringir.) að stjórnvöld grípi til einhverra aðgerða til að breyta því til að skapa aukna sátt í samfélaginu?