144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

kjarasamningar og misskipting eigna í samfélaginu.

[12:57]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra byrjaði nú á því að draga það í efa þegar ég vitnaði til orða ríkissáttasemjara. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra horfði á viðtalið, en ríkissáttasemjari sagði það hreint og klárt að samningar væru ekki reikningsdæmi nema að hluta til, að þeir snerust líka um hvað þætti sanngjarnt í samfélaginu. Það eru þessi pólitísku álitamál sem ég nefni. Ég bið nú bara menn að virða það þegar maður vitnar í fólk, að það sé með réttum hætti gert. Þar hljóta auðvitað að vakna stórar spurningar.

Ég spurði hæstv. ráðherra meðal annars út í misskiptingu eigna í samfélaginu, hvort honum þætti það eðlilegt að ríkustu 10% ættu 70% af auðnum í samfélaginu. Hvort hann teldi virkilega að jöfnuðurinn væri orðinn of mikill. Ég er nokkuð sannfærð um að fólkinu sem veitir okkur þau völd að sitja hér, fólkinu sem sinnir sínum daglegu störfum úti í samfélaginu, finnst ekki þessi jöfnuður orðinn of mikill. Það er hluti af þeirri ólgu sem er úti í samfélaginu og það eru þær kröfur sem fólk setur hér fram í ræðu og riti, af því að eins og ríkissáttasemjari segir, kjarasamningar eru ekki (Forseti hringir.) reikningsdæmi nema að hluta til. Það skiptir máli að skapa sátt um hvernig (Forseti hringir.) við skiptum gæðunum, herra forseti.