144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

kjarasamningar og misskipting eigna í samfélaginu.

[12:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég var eingöngu að vekja athygli á því að í kjaraviðræðum semja menn um kaup og kjör, svo tökum við ákvarðanir hér á Alþingi um það hvernig við skipum málum um stjórn fiskveiða, nýtingu auðlindanna og um marga aðra slíka hluti. Þeir hlutir eiga ekki erindi inn á borð til ríkissáttasemjara. Ég trúi því ekki að hann hafi verið að meina að við samningaborðið væri verið að takast á um hvernig við ættum að skipta arðinum af nýtingu auðlindanna. Það var það sem ég sagði. (Gripið fram í.)

Varðandi jöfnuðinn. Ég hef aldrei sagt að hér væri orðinn of mikill jöfnuður. Ég sagði í umræðum um þessi mál fyrir skömmu hér á þinginu að í kröfum einstakra stéttarfélaga kæmi fram sú skoðun að ekki væri umbunað nægilega fyrir þekkingu og í þeim orðum liggur meðal annars að sumar stéttir njóti ekki launahækkana í samræmi við það sem þær hafa lagt á sig í námi og við öflunar þekkingar. Í því felst meðal annars sú skoðun að hér sé mögulega orðinn of mikill jöfnuður. Það voru ekki mín orð, það er nokkuð sem hægt er að draga ályktun af miðað við framstilltar kröfur. (Forseti hringir.)

En við þurfum svo sem (Forseti hringir.) ekkert að leita langt yfir skammt um hvort mikill jöfnuður er á Íslandi eða ekki, okkur berast reglulega skýrslur um (Forseti hringir.) það. Hér er einhver mesti jöfnuður í heimi þannig að ekki getur það nú verið vandamálið. (Gripið fram í.)