144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

kjaraviðræður og virkjunarmál.

[13:02]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það var ekkert hægt að misskilja orð mín hvað þetta varðar. Hins vegar hafa hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar farið vísvitandi með rangt mál undanfarinn sólarhring um hvað ég hafi sagt. Vísvitandi segi ég, vegna þess að sú spurning sem hv. þm. Helgi Hjörvar bar hér fram — ég var spurður þeirrar sömu spurningar fyrir tveimur dögum, í fyrradag af hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur og ég svaraði þá mjög afdráttarlaust og skýrt svoleiðis að þingmenn þurftu ekkert að velkjast í vafa um hver meiningin hefði verið á bak við það sem ég hafði sagt, hún var nákvæmlega sú sem fylgdi orðanna hljóðan. En þar sagði ég, svo ég vitni í sjálfan mig, með leyfi virðulegs forseta:

„Ég er einfaldlega að segja að ef menn ætla að semja um verulegar launahækkanir þá þarf aukna verðmætasköpun í landinu til þess að þær launahækkanir skili sér í auknum kaupmætti, annars fara þær fyrir lítið og brenna upp í verðbólgu.“

Þetta hef ég sagt ítrekað, virðulegur forseti, og ekki haldið því fram, aldrei nokkurn tímann haldið því fram að menn væru að ræða rammaáætlun í kjaraviðræðum sín á milli við aðila vinnumarkaðarins. Ég hef einfaldlega bent á þá augljósu staðreynd að ef verulegar launahækkanir eiga að skila sér í raunverulegri kaupmáttaraukningu þá þarf aukna verðmætasköpun í landinu. Eitt af því sem þarf til þess að við getum haldið uppi hagvexti hér er að þau fjölmörgu nýsköpunarfyrirtæki sem bíða í startholunum fái þá orku sem þau þurfa.