144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

breytingar á framhaldsskólakerfinu.

[13:16]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Þá er rétt að lýsa því aðeins hvaða samráð hefur átt sér stað þannig að það fari ekkert á milli mála. Eins og ég sagði áðan voru þessi mál rædd á fundi skólameistara strax vorið 2014, svo haustið 2104 og vorið 2015. Það var einmitt unnin styrkleika- og veikleikagreining á svæðunum sem skólameistararnir unnu með okkur. Það sem meira er, ef menn hafa lesið textann í fjárlögum kemur fram í bæði núverandi og síðustu fjárlögum að það standi til að gera breytingar á rekstrarfyrirkomulagi skóla til þess að geta mætt þeirri þróun sem er augljóst að mun verða, sama hvað okkur finnst. Þegar þetta er tekið saman plús það að mínir embættismenn höfðu farið um landið allt á síðustu mánuðum, ekki bara núna um daginn, fundað með skólameisturum og rætt þessi mál og síðan ég sjálfur fyrir ekki svo löngu síðan á ferð um Norðurlandið þar sem ég átti líka fundi með skólameisturunum og ræddi meðal annars nauðsyn þess að við brygðumst við þessari þróun og tryggðum að námsframboð í minni skólunum yrði meira þannig að krakkarnir ættu námsval, verð ég að leyfa mér að mótmæla því að ekki hafi farið fram neitt samráð eða að þetta sé gert í einhverjum myrkraverkum eins og hér hefur verið gefið í skyn eða að hérna sé um að ræða einhvers konar leiftursókn. Þetta verkefni hefur verið á teikniborðinu í langa tíð. Ég vek athygli hv. þingmanns á texta fjárlaganna og því sem hv. þm. Kristján L. Möller nefndi áðan, fund í ráðuneytinu með Íslandskort uppi á vegg þar sem ákveðin svæði voru skoðuð með tilliti til samstarfs og samþættingar skólastarfsins. Það að láta eins og þetta hafi fallið af himnum ofan einhvern veginn fyrir örfáum dögum er rangt. Það er rangt og það er rangt.