144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

aðkoma ríkisins að kjarasamningum.

[13:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Fyrst aðeins um virkjanirnar, ég held að það sé ekki alveg rétt með farið sem sagt er um forsætisráðherra. Ég tel að við hæstv. forsætisráðherra séum sammála um að það að halda áfram af varfærni og virðingu fyrir náttúrunni en með skýran vilja til að nýta orkunýtingarkosti okkar, að virkja, sé hluti af því að tryggja hér viðvarandi vöxt í hagkerfinu og hluti af því að byggja áfram upp góð lífskjör.

Hvað er ríkisstjórnin tilbúin að gera? Ég fagna umræðu um það. Ég get alveg farið yfir það í stórum dráttum.

Í fyrsta lagi höfum við talað um að við værum tilbúin að gera breytingar á tekjuskattskerfinu, vinda ofan af tiltölulega nýlegum hækkunum á tekjusköttum og skila þeim aftur til fólksins í landinu með breytingum til einföldunar á tekjuskattskerfinu. Við getum ekki sett tölur á bak við þessi áform fyrr en við sjáum einhverja heildarmynd.

Við höfum líka talað um breytingar í húsnæðismálum. Bæði hefur verið rætt um að auka við stuðning þeirra sem eru á leigumarkaði, þ.e. að hækka leigubætur, sem og að grípa til ráðstafana til að tryggja frekari uppbyggingu félagslegs húsnæðis. Hið sama gildir þarna, við getum ekki sett beinar tölur á bak við þetta fyrr en við sjáum í hvað stefnir í niðurstöðum kjarasamninganna.

Það er hægt að nefna fleira. Við höfum verið opin fyrir því að ræða breytingar á endurgreiðslum námsmanna til Lánasjóðs íslenskra námsmanna og höfum velt fyrir okkur ýmsum valkostum þar og hlustað eftir áherslum þeirra sem eru einkum að tefla þessu fram.

Um alla þessa þætti er hægt að segja að við fáum enga skýra línu frá viðmælendum, hvorki frá almenna markaðnum, þ.e. þeim félögum sem eiga í viðræðum við Samtök atvinnulífsins, né frá opinberu félögunum. Það er enginn samhljómur milli þessara aðila og meðan svo er er erfitt að fullgera tillögur ríkisstjórnarinnar.

Á fundum höfum við ítrekað, aftur og aftur, bæði tvíhliða og með mörgum í einu, nefnt þessa þætti og fleiri sem dæmi um þær ráðstafanir í ríkisfjármálum sem við erum tilbúin að gera til að auka kaupmátt launþeganna í landinu. En við erum hins vegar ekki tilbúin að ganga svo langt að (Forseti hringir.) grípa til þensluhvetjandi aðgerða ef niðurstaða kjarasamninganna um launaliðinn einan og sér verður sú að auka verðbólgu og hækka vexti. Það finnst mér efnahagslega óábyrgt.