144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

ósk um fund forseta með þingflokksformönnum.

[14:02]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við óskuðum fyrir hádegishlé eftir fundi forseta með þingflokksformönnum í ljósi þess hversu alvarlegur hnútur er kominn upp í þingstörfunum. Við erum komin vel á aðra viku í umræðu um eitt tiltekið þingmál. Ástæðan fyrir því að þessi mikli hnútur er kominn upp er verulegur efnislegur ágreiningur um breytingartillögu atvinnuveganefndar við tillögu umhverfisráðherra um þingsályktun um rammaáætlun. Auk þess eru margir þingmenn þeirrar skoðunar að hér sé farið fram af miklu offorsi gegn anda laganna um rammaáætlun og telja það óráð og því mikilvægt að verkefnisstjórn fái að ljúka þeirri vinnu sem nú stendur yfir að því er varðar þessa viðbótarvirkjunarkosti og við verðum þá sammála um að ferillinn sé hafinn yfir vafa.

Virðulegur forseti. Ég tel að forseti verði að stíga inn út af stöðunni sem upp er komin til að (Forseti hringir.) reyna að ná einhverri lausn í þessu máli.