144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

ósk um fund forseta með þingflokksformönnum.

[14:18]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður, varaformaður Samfylkingarinnar, talar mikið um kjaramál og að ekki sé verið að ræða þau hér, segir að ríkisstjórnin stingi höfðinu í sandinn. Ég veit ekki hvort hún hefur hlustað á ræðu fjármálaráðherra áðan þegar hann sagðist vera búinn að kynna aðilum vinnumarkaðarins að ríkisstjórnin væri tilbúin að koma að þessum kjarasamningum með margvíslegum hætti, svo sem húsnæðismálum, skattamálum, tollamálum og fleiru. Hann tók heils hugar undir þá umræðu að bæta þyrfti kjör hinna lægst launuðu í samfélaginu. Eins og Magnús Pétursson ríkissáttasemjari hefur komið inn á hefur ríkið ekki spilað út sínum spilum. Hann sagði að það hefði ekki gert það en ríkið væri tilbúið til að taka þátt í ábyrgum kjarasamningum, línan væri þannig að ríkið færi ekki á undan heldur kæmi ríkið með en engar kröfur hefðu komið frá aðilum vinnumarkaðarins um þátttöku ríkisins, þ.e. í hverju hún ætti að liggja, engar beiðnir. Ég óska hér eftir því að hv. varaformaður Samfylkingarinnar geri grein fyrir tillögum Samfylkingarinnar í þessum efnum.

Svo er það snyrtilega kveðjan frá þingflokksformanni Vinstri grænna, hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur, (Forseti hringir.) um að taka eigi vandamálið, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, Bjarna Benediktsson og Jón Gunnarsson, út fyrir sviga og hin friðelskandi (Forseti hringir.) Svandís Svavarsdóttir setjist þá niður og komi með tillögu að lausn. Já, ég skal bíða eftir tillögu að lausn frá minni hlutanum í þessu (Forseti hringir.) máli, gjarnan einhverja aðra tillögu en þá að málið eigi að fara af dagskrá og senda til síns heima. Það er ekki tillaga að einhverri sátt sem við getum náð um þetta mál. (Gripið fram í: … halda hérna ræðu.)