144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

ósk um fund forseta með þingflokksformönnum.

[14:23]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er full ástæða til að ræða hvernig við getum þokað málum áfram. Ég verð að viðurkenna að þrátt fyrir þá miklu umræðu sem hér hefur átt sér stað bæði um fundarstjórn forseta og málið þá vekur það undrun mína að hér kemur fram á visir.is í dag að hv. þm. Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, segir að málið snúist ekki um form heldur efni og rökstyður það, að við séum að rífast um virkjunarkosti en ekki að um það hvernig eigi að fara með málið málefnalega og hvernig eigi að taka það fyrir og klára í verkefnisstjórn áður en það kemur inn annars staðar.

Ég get bara talað fyrir sjálfan mig og ég hef stutt það að tillagan eins og hún var upprunalega um Hvammsvirkjun komi á dagskrá, við ljúkum henni og ég er tilbúinn að afgreiða hana með jákvæðum hætti, hef tjáð mig um það áður, en ég krefst þess að menn fari ekki út fyrir form rammaáætlunar og taki ekki aðrar tillögur á dagskrá fyrr en verkefnisstjórn hefur lokið vinnu sinni.

Ég bið hv. formann að svara því hvað sé hægt að búast við að verkefnisstjórnin þurfi langan tíma, miðað við að það lægju nú fyrir peningar, til að afgreiða þessa virkjunarkosti. (Forseti hringir.) Það er það sem þarf til að leysa deiluna, það er að senda þetta þangað, gefa því smátíma, klára Hvammsvirkjun og ljúka (Forseti hringir.) þannig málinu. En það má greinilega ekki.