144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

ósk um fund forseta með þingflokksformönnum.

[14:24]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka beiðni mína um það að hæstv. forseti fundi með þingflokksformönnum. Það er alvarleg staða uppi á vinnumarkaði eins og komið hefur verið inn á margoft í dag og síðustu daga. Og það er ekki bara óánægja með launin, heldur er almennt launafólk ósátt við með hvaða hætti við skiptum arðinum af auðlindunum og með hvaða hætti vaxandi misskipting eigna er að verða hér í samfélaginu. Þetta er grundvallarvandi sem þessi ríkisstjórn hefur ýtt undir með stjórnarathöfnum sínum. Þessi þingsályktunartillaga sem við ræðum núna, eða breytingartillagan við hana, er dæmigerð meðferð þessara flokka á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Við stöndum varðstöðu gegn slíku. Nú verður að halda fund og koma á eðlilegu starfsumhverfi hér í þinginu.