144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

markaðslausnir í sjávarútvegi.

[14:54]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Já, þær eru búnar að vera ansi langar þessar deilur um fiskveiðistjórnarkerfið. Það var svo sem engin sátt um kvótakerfið í upphafi heldur. Þá voru það sjómenn og útgerðarmenn margir sem deildu á það að verið væri að skerða atvinnuréttindi þeirra, þeir sem höfðu fjárfest í greininni, sjómenn sem höfðu unnið við hana í mörg ár voru ákaflega ósáttir við það að þurfa að fara að sæta aflaskerðingum.

Þau markmið sem þar voru sett hafa gengið upp, líka með framsalinu sem var sett á árið 1991 og hefur sennilega verið eitt stærsta skrefið í hagræðingarátt í íslenskum sjávarútvegi. Þar fór af stað úrelding skipa, útgerðin greiddi sjálf fyrir það með því að borga inn í sjóð sem var svo greiddur til þeirra sem voru að úrelda skip. Því er öðruvísi farið hjá öðrum þjóðum þar sem ríkið greiðir yfirleitt fyrir slíka úreldingu, eins og Evrópusambandið gerir í dag. Síðan hafa átt sér stað mikil kaup á aflaheimildum og sameining fyrirtækja orðið mikil og fiskiskipaflotinn hefur minnkað og hagræðing hefur náðst í gegn. Þetta voru auðvitað markmiðin með þessari leið. Afleiðingarnar voru fyrirsjáanlegar. Það hefur oft valdið deilum að menn fóru út úr greininni með mikla fjármuni, jafnvel frá fyrirtækjum sem voru ekkert allt of vel rekin. En það er erfitt að vinda ofan af því sem áður hefur gerst og menn sáu þær deilur kannski ekki alveg fyrir eins og þær hafa verið.

Þá erum við komin að þessum makrílstofni núna, sem hv. þingmaður fór hér inn á áðan, og hvaða leiðir eigum við að fara í því. Ja, ég er alveg harður á því í minni skoðun að mér finnst að framsal eigi ekki að vera með þeim hætti sem var sett á við framsalið á sínum tíma, við þurfum að setja því einhverjar skorður. En við þurfum einhvern veginn að deila því út og reyna að ná hámarksarðsemi áfram af þeirri grein og af þessari náttúruauðlind okkar. Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, mér er eiginlega alveg sama hvernig fiskveiðistjórnarkerfið á Íslandi lítur út, mér er eiginlega alveg sama, ef það skilar árangri, hvaða leið er farin. (Forseti hringir.) Ef menn geta komið með ásættanlega leið aðra en þá sem við höfum farið, þá er það bara hið besta mál að reyna að ná sátt um hana. En vandamálið er að við erum að breyta kerfi (Forseti hringir.) sem hefur gefið af sér mikinn árangur og við þurfum að fara varlega í þau skef að breyta því.