144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

markaðslausnir í sjávarútvegi.

[14:59]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Ef þjóðin á í raun fiskveiðiauðlindina, á í raun, eins og kemur fram í lögum um fiskveiðistjórn þá hlýtur þjóðin að geta fengið markaðsverð fyrir þá eign. Það er varla eign þjóðarinnar ef þjóðin fær ekki markaðsverð fyrir hana. Þannig er fyrirkomulagið núna.

Er þetta versta fyrirkomulag í heimi? Nei. Að setja á einhvers konar takmörkun á sínum tíma, á endanum var það kvóti? Nei, það var ekki slæmt. Það þurfti að gera það til að tryggja sjálfbærni, og það þarf að tryggja sjálfbærni þegar verið er að tala um svona sameiginlega auðlind. En það var gert á þeim forsendum að þeir sem urðu fyrir þessari skerðingu, sem voru að veiða og höfðu fjárfest, fengu kvótann en úthlutað var í eitt ár og svo eitt ár og eitt ár, til eilífðar.

Þegar menn leggja út í kostnað í atvinnustarfsemi geta þeir fengið og sótt um að fá einkaleyfi í einhvern ákveðinn tíma. Það er gert með „patents“, einkaleyfi. Þá fá menn einkaleyfi í einhvern tíma og það eru oft 20 ár, hámark 20 ár, en þetta hefur verið í rúm 30 ár. Þá segja menn: Já, en menn seldu kvótann og aðrir keyptu hann. Framsal tryggir náttúrlega ákveðna skilvirkni sem er skynsamlegt. En þá segja menn: Já, en þeir keyptu kvótann og það er ekki hægt að taka hann af þeim bara sisvona. Nei, það þarf náttúrlega að tryggja ákveðið jafnræði og ákveðna sanngirni í þessu, en til að gera það og tryggja að þjóðin fái raunverulega markaðsverð fyrir það væri ein leiðin sú sem lögð var fram á síðasta kjörtímabili að 5% á ári mundu fara til ríkisins og síðan á uppboð. Þá mundu menn þurfa að borga markaðsverð fyrir að fá samning til að veiða fisk í 20 ár. Þá kemur sjálfbærnisjónarmiðið inn í. Þetta væri leið sem væri mögulegt að fara, hún væri sanngjörn.

Það mundu ekki allir fá allt sitt, þjóðin mundi ekki fá þetta til sín á einu bretti sisvona, nei, það tæki tíma til að sýna ögn sanngirni. En þarna værum við komin með markað, þjóðin mundi í fyllingu tímans á 20 árum vera búin að fá markaðsvirði fyrir sína eign. Það væri eitt sem væri hægt að gera. Ef ég mundi ráða, en ég á ekki að ráða, (Forseti hringir.) en ef ég mundi ráða mundu allir hafa nýtingarrétt, einn á móti 320 þúsund, sem væri bara í pottinum hjá ríkinu og fólk fengi greiddan tékka þegar þetta færi á markað. En ég á ekki að ráða þessu. (Forseti hringir.) Það verður að samþætta þessa hagsmuni og tryggja það að hægt verði að finna þjóðarsátt um þetta.