144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

markaðslausnir í sjávarútvegi.

[15:09]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég held að mikilvægt sé í umræðum um sjávarútveg að byrja á því að minna sig á grundvallaratriðin sem ég held að við séum öll sammála um. Ég held að við getum öll verið stolt af því að á Íslandi er öflugur sjávarútvegur. Hér er stundaður sjálfbær sjávarútvegur og sjálfbærar veiðar, það held ég að megi fullyrða. Sjávarútvegsfyrirtækin eru sterk og þau skila arði, en við getum ekki horft fram hjá því að þrátt fyrir þetta hefur ríkt langvarandi ósætti um það kerfi og hvernig við stundum sjávarútveg. Það snýst aðallega um það að eigandi kvótans, eigandi veiðiréttindanna, fær ekki nógu mikið í sinn hlut. Það snýst líka um það sem ég held að megi segja að séu inngrip ríkisins í þetta fyrirkomulag vegna þess að úthlutun ríkisvaldsins á veiðiheimildunum hefur alltaf verið umdeilanleg. Hún er í raun og veru í mínum huga að minnsta kosti og í samhengi þessarar umræðu inngrip í markað. Markaðslausnir eru dásamlegar í umhverfi þar sem þær eiga heima. Ef maður á hús og langar að selja það leitar maður tilboða og maður getur ekkert rökrætt við það hvað fólk er reiðubúið að borga fyrir húsið, það keppir einfaldlega um húsið. Það er sanngjarnt fyrirkomulag.

Við erum held ég sem betur fer komin á þann stað með íslenskan sjávarútveg að við getum innleitt þetta sanngjarna fyrirkomulag í útdeilingu á þessum takmörkuðu gæðum. Ég held að það sé dásamlegt. Þá þyrftum við ekki að rökræða um hlut þjóðarinnar í þessu lengur, útvegsmennirnir sjálfir, þeir sem veiða fiskinn, mundu ákveða á frjálsum markaði hvað þeir eru reiðubúnir að greiða fyrir heimildirnar. Það væri sanngjarnt. (Forseti hringir.) Við það fyrirkomulag væri ekki hægt að rökræða og með því væri að mínu mati unnið það sem við öll erum að reyna að sækjast eftir, sem er sátt um sjávarútveginn.