144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

markaðslausnir í sjávarútvegi.

[15:14]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Eitt sem ég gleymdi að nefna áðan. Áðan talaði ég um jafnræðið milli raunverulegs eiganda auðlindarinnar, þjóðarinnar, alla vega lögum samkvæmt, og svo þeirra sem hafa keypt heimildir til þess að veiða. Annað jafnræði er, eins og ég nefndi áðan, að 5% á ári færu til þjóðarinnar og væri leigt út á markaði til 20 ára sem mundi þá tryggja fyrirsjáanleika í greininni en jafnframt að yfir tímabil, jafnvel 20 ára tímabil, mundi þjóðin fá markaðsvirðið fyrir nýtingarréttinn, fyrir sína eign, sína þjóðareign. Þá er það spurning eins og þingmenn hafa nefnt hérna, að það gæti þá þýtt samþjöppun í greininni o.s.frv., já. Það gæti þýtt það nema að því væri þá stillt þannig upp að jafnræðis væri líka gætt, af því að fyrirkomulagið eins og það er í dag þá hafa menn fjárfest ýmist í smærri eða stærri bátum. En til að hægt væri að tryggja jafnræði væru kvótapottar, settir á markað eftir mismunandi stærð báta á mismunandi stöðum á landinu. Það væri alveg hægt að tryggja þetta. Þá væri pólitíkin í rauninni að skipta sér af þessum sjónarmiðum varðandi jafnræði víðs vegar um landið og eftir stærð á bátum og hvenær menn hafa fjárfest og svoleiðis, en þjóðin fengi alltaf á endanum til sín markaðsvirðið, það sem markaðurinn gæti greitt fyrir að nýta þessa auðlind þjóðarinnar. Þetta er ekki raunveruleg þjóðareign ef þjóðin getur ekki fengið markaðsvirði fyrir hana.