144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

markaðslausnir í sjávarútvegi.

[15:18]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna, hér hefur margt áhugavert komið fram. Í máli frummælanda kom fyrst fram að hér væri verið að úthluta makríl án endurgjalds. Hv. frummælandi leiðrétti sig síðan aftur enda augljóslega ekki um það að ræða þar sem bæði er lagt á veiðigjald og viðbótargjald.

Staðan á Íslandi er sú að við erum með, ég veit að þingmenn gleðjast yfir því þegar ég segi þetta, besta sjávarútveg í heimi. Það erum ekki bara við sem segjum þetta, það er líka OECD og ýmsar virtar fræðistofnanir sem eru að meta það kerfi sem við búum við. Hér skilar þetta kerfi mjög háum launum til sjómanna, arðsömum sjávarútvegi sem hefur skilað umframhagvexti í nokkra áratugi. Það eru engir ríkisstyrkir en engu að síður er enn fjölbreyttur sjávarútvegur um land allt þótt vissulega sé margt ógert í byggðamálum. Hefði uppboðskerfi á þessum tíma byggt upp sömu stöðu? Ég efast um það, m.a. vegna reynslu ýmissa annarra þjóða sem það hafa prófað. Ég fagna yfirlýsingu fulltrúa Vinstri grænna um að skynsamlegt sé að fara þær leiðir sem hæstv. ráðherra og ráðuneyti leggja til þó að við séum ekki nákvæmlega sammála um útfærsluna.

Hins vegar verða fulltrúar Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar að útskýra það nánar hvernig þau ætla að koma til móts við ýmsar minni sjávarbyggðir landsins, hvernig byggðamálin eiga að vera. Það hefur skort algjörlega í þessa umræðu þar sem menn hafa verið að tala um að uppboð skili hámarksafrakstri. Einn fulltrúi lagði til að þetta mundi skila hámarksafrakstri sem mundi jafnframt vera til mjög góðs fyrir öll byggðarlög landsins. Það er augljóslega ekki staðreyndin. Gallinn við það er — það hljómar vel að bjóða bara upp lítinn hluta á hverju ári — að það er bara fræðilegur vandi að við fáum alltaf jaðarverð sem er ekki hið raunverulega markaðsverð, þ.e. yfirverð, sem við (Forseti hringir.) erum alltaf að fá á hverju ári, það er ástæðan, og þess vegna hafa flestar þjóðir sem stýra sjávarútvegi ekki farið út í uppboðsleið. En höfum við skoðað hana? Já, við höfum skoðað hana. Við höfum komist að því að sú leið sem við erum með er mjög góð, já, við höfum komist að því. Af hverju ættum við að bregða frá þeirri leið sem er talin vera sú besta í heimi?