144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

ummæli sjávarútvegsráðherra og sameining skóla.

[15:30]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það hefur verið gagnrýnt mjög undanfarið og núna af hv. þm. Árna Páli Árnasyni að menntamálaráðherra virðist ganga laus um landið og fara í viðræður um sameiningar án nokkurrar aðkomu Alþingis. Það verður að ýta málinu sem hér er til hliðar og fara að ræða þessi grafalvarlegu mál á þingi eins og það nýjasta varðandi einkavæðingu Iðnskólans í Hafnarfirði og lögfræðiálitið sem þar liggur fyrir. Það er ekki hægt að bjóða þjóðkjörnum fulltrúum upp á að verið sé að gjörbreyta menntastefnu landsins án þess að Alþingi hafi nokkra aðkomu að því. Við getum ekki sætt okkur við þau vinnubrögð hæstv. menntamálaráðherra og hann verður að koma hingað og tala sínu máli og þingmenn verða að geta rætt þessi mál (Forseti hringir.) á þessum vettvangi, annað er ekki boðlegt.