144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

ummæli sjávarútvegsráðherra og sameining skóla.

[15:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir að vekja athygli Alþingis á þessu lögfræðiáliti um sameiningu Iðnskólans í Hafnarfirði við Tækniskóla Íslands þar sem því er haldið fram af Andra Árnasyni að samkvæmt lögskýringum þurfi samþykki Alþingis fyrir því að leggja slíkan skóla inn í annan. Ég nefni þetta líka í tengslum við þá skerðingu framhaldsskólanáms sem hæstv. ráðherra boðar, því samkvæmt sömu lögskýringargögnum, þ.e. nefndaráliti meiri hluta menntamálanefndar á þeim tíma þegar framhaldsskólalögin voru samþykkt, kom skýrt fram að ætlunin með lögunum væri að auka sveigjanleika og faglegt sjálfstæði skólanna. Ætlunin væri ekki sú að skerða inntak náms til stúdentsprófs. Ef hv. þm. Árni Páll Árnason hefði ekki komið og kynnt þetta fyrir okkur hefðum við vafalaust ekkert fengið að heyra af þessu því það hefur ekki verið stíll hæstv. ráðherra að koma hér og kynna málatilbúnað sinn fyrir Alþingi Íslendinga. Hér þarf að spyrja (Forseti hringir.) um allt.

Ég vil vekja athygli Alþingis og hæstv. forseta á því að ég hef verið með fyrirspurn inni síðan snemma í apríl um það (Forseti hringir.) hvort til standi að sameina framhaldsskóla áður en þessar fregnir fóru að birtast í fjölmiðlum og enn hef ég ekki fengið (Forseti hringir.) tækifæri til að spyrja hæstv. ráðherra þessa. Þannig að ég tek undir þær kröfur sem hér heyrast um að fá ráðherra til að svara fyrir sín mál í þinginu.