144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

ummæli sjávarútvegsráðherra og sameining skóla.

[15:38]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Frú forseti. Ég kem hingað upp til þess að taka undir með þeim hv. þingmönnum sem talað hafa um þetta mál. Ég hef miklar áhyggjur af því hvernig staðan er í menntamálum og hvernig hæstv. menntamálaráðherra fer fram. Ég efast ekki um að honum gengur gott eitt til, en það stendur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að hún ætli að leggja áherslu á að efla menntakerfið með hagsmuni nemenda og þjóðarinnar allrar að leiðarljósi og að hún ætli að gera það í nánu samráði við alla hagsmunaaðila.

Er Alþingi ekki hagsmunaaðili þegar kemur að menntastefnu þjóðarinnar? Ég velti því fyrir mér. Það er alveg sama hvar drepið er niður í menntamálum — það er hvítbókin, það er menntamálastofnun og nú þessar sameiningar skóla — ekkert samráð er haft við fólk, ekki eitt einasta. Mér finnst það mjög alvarlegt. Við eigum að fá að taka þátt í því hér í þinginu.