144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

ummæli sjávarútvegsráðherra og sameining skóla.

[15:47]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Okkur hér hefur verið talin trú um að ekki þurfi aðkomu Alþingis til að leggja niður Iðnskólann í Hafnarfirði, að þingmenn geti ekkert gert og hæstv. ráðherra hafi þarna öll völd og að nægilegt sé að tilkynna það í texta með fjárlagafrumvarpinu að til standi að gera breytingar á framhaldsskólastigi. Því hefur verið haldið fram við okkur hv. þingmenn. Við höfum náttúrlega talið það mjög skrýtið og þá hefur okkur verið bent á að þegar Iðnskólinn í Reykjavík var lagður niður og sameinaður Tækniskólanum hafi ekki þurft aðkomu Alþingis. En nú erum við með lögfræðiálit í höndunum og það er nauðsynlegt í svona stóru máli, sem varðar eina stoð velferðarkerfisins, að hæstv. ráðherra komi hér strax og fari í (Forseti hringir.) umræðu sem ekki verður einföld heldur lengri en vanalega.