144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:15]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Ein af þessum virkjunum og sú sem skiptir langminnstu máli er Skrokkalda, 30 megavött, skiptir engu máli. Hún er hins vegar markverð fyrir þá sök að hún er á jaðri miðhálendisins. Sú virkjun mun varla geta staðið ein án þess að byggð verði upp einhvers konar burðarvirki fyrir raforku. Það þarf líka að byggja þar uppháan veg. Þar með erum við í reynd að samþykkja mannvirki inni á miðhálendinu. Í tengslum við hana er síðan rætt um tvær aðrar jarðgufuvirkjanir sem gera á með skáborunum undir Hágöngulón, Hágöngur I og II.

Menn hafa jafnframt verið að ræða um línu yfir Sprengisand og í tengslum við hana veg yfir Sprengisand. Niðurstaða mín þegar ég sé þetta allt saman er þessi: Ég tel að íslenska þjóðin þurfi að taka sérstaka umræðu um það hvort hún er sátt við að ráðist verði í mannvirki á miðhálendinu og það finnst mér eiginlega vera óskylt þessu. En ég nefni þetta vegna þess að það er ástæðan fyrir því sem ég hef verið að segja hér, (Forseti hringir.) að það sé ótímabært að ráðast í Skrokköldu. Þá erum við að fara inn á miðhálendið. Um það þarf að taka sérstaka umræðu.