144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:18]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Páli Val Björnssyni fyrir góða ræðu, gott innlegg, ég átti ekki von á öðru. Ég tek undir með honum varðandi málþófið sem hér hefur farið fram. Það er náttúrlega ekki boðlegt.

Þessi dagskrárliður um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða er þriðji liður á dagskrá þessa þingdags. Þingið hófst klukkan 10 í morgun. Ætli minni hlutinn sé ekki búinn að stíga í þessa pontu svona 200 sinnum síðan og eyða tíma okkar til lítils.

Mig langar að spyrja hv. þingmann vegna þess að honum er tamt að tala um þessa 38 íbúa sem ég met mikils, hvað honum fannst þegar fyrrverandi umhverfisráðherra neitaði að samþykkja aðalskipulag Flóahrepps sem stöðvaði allar framkvæmdir þar og var dæmd fyrir bæði í undirrétti og Hæstarétti vegna þess máls, hvort það hafi ekki (Gripið fram í.) verið upphafið á broti á samkomulaginu.