144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:21]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Jú, það hefði kannski verið hægt að fara eftir því. Var búið að afgreiða hana af verkefnisstjórn rammaáætlunar? Nei, það var nefnilega ekki búið að því. Þegar búið verður að því þá gæti ég alveg tekið undir að virkja þarna. Ég hef farið svolítið mikið um kjördæmið eins og við öll í þessu kjördæmi, við erum dugleg að ferðast um, og það virðist vera mál manna uppi í Bláskógabyggð og annars staðar að þeir vilji þessa virkjun. Á ég þá að setja mig á móti því? Ég get það ekki. Það getur vel verið að ég sé á móti henni, en það eru þeir sem ráða. Ég er þingmaður Suðurkjördæmis og reyndar landsins alls og mér finnst svo mikilvægt að við hlustum á fólkið í landinu þegar við tölum um þessa hluti. Það er alveg sama hvert litið er, hvort sem það er í sambandi við fiskveiðimál eða orkumálin, við þurfum að leggja okkur fram við að fá sem mestan arð af þessu. En ef íbúar í uppsveitum Árnessýslu vilja þessa virkjun til að ná niður rafmagnskostnaði og nota orkuna jafnvel til frekari atvinnuuppbyggingar, þá er ég ekki að setja mig á móti því.