144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:24]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, þetta er alveg rétt hjá hv. þingmanni, þetta stendur, hún nefnir okkur í Bjartri framtíð og hvernig við ætluðum að reyna að breyta stjórnmálum. Ég tel að við höfum haft ágætisáhrif hér á þingi síðan kjörtímabilið byrjaði. Við höfum komið fram af kurteisi og virðingu við alla og við höfum ekki stundað málþóf. Þetta er fyrsta málið þar sem við tölum svona ofboðslega mikið vegna þess að menn eru gjörsamlega ósáttir við það, ofboðslega ósáttir. Þess vegna standa, ekki öll okkar en sum okkar, í því að fara upp í fundarstjórn forseta til að láta hann vita af því að við séum ósátt við að þetta mál skuli vera á dagskrá. En auðvitað eigum við öll að stefna að því, sama hvar í flokki við erum, að reyna að bæta samskiptin og ekki síst samráð á þingi.

Ég sit í nefnd þar sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir er formaður og samstarf okkar þar þvert á flokka hefur verið til mikillar fyrirmyndar, ég segi ekki annað. Og þannig ættum við að hafa þetta á þingi líka, alltaf.