144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:29]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Jú, við eigum að taka mark á fagfólki, til þess er rammaáætlun. Og við eigum líka að hlusta á fólkið í landinu sem býr á þessum svæðum og þessar framkvæmdir munu hafa mikið rask í för með sér og hafa mikil áhrif. Við eigum að hlusta á það fólk.

Varðandi ástandið í þjóðfélaginu þá er svolítið slæmt ástand hér á landi, ég er ekki að reyna að gera meira úr því en efni standa til. Það er bara staðreynd, því miður. Það er kannski ekki endilega okkar hlutverk að leysa kjaradeilur, það er kannski ekki hlutverk ríkisins að leysa kjaradeilur á almennum markaði, en ef þingmaðurinn hefur hlustað á ræður mínar hef ég, alveg frá því að ég byrjaði sem þingmaður fyrir tveimur árum, hvatt ríkisstjórnina til þess að blása til samráðs við Alþingi, sveitarstjórnir, launþegasamtök og atvinnurekendur og alls konar félög. Það hefði skapað frið og sátt í samfélaginu, það er það sem ég er að meina. Þannig getum við haft áhrif.