144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:30]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við eigum að hlusta á fólkið, heimamenn, ég er alveg sammála því. Það er mikið kvartað yfir því að orkan sé ekki nýtt í heimabyggð, eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni. Ég tek heils hugar undir það, við þurfum að bæta úr því. Hv. þingmaður tók þátt í því ásamt þeim sem hér stendur að gera auðlindastefnu fyrir Grindavíkurbæ þar sem við kveðum á um að svo og svo mikið hlutfall af auðlindinni eigi að nýta í heimabyggð.

Þess vegna spyr ég: Hvað finnst hv. þingmanni þá um sæstreng ef við ætlum að fara að virkja hér einhverjar náttúruperlur og flytja það rafmagn í gegnum jarðstreng til Evrópu? Mig langar líka til að spyrja hann um Eldvörpin, við tókum nú báðir þátt í því að vernda þau þar sem við vorum báðir í bæjarstjórn Grindavíkur, en Eldvörpin eru í nýtingarflokki (Forseti hringir.) ásamt fleiri virkjunarkostum sem eru í Reykjanesfólkvangi. Hvað finnst honum um það?