144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:46]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með öðrum þingmönnum sem hafa talað um fjarveru ráðherra við umræðuna og tek sérstaklega fram, sem á auðvitað við um okkur öll, að næstur á mælendaskrá er hv. þingmaður og formaður Samfylkingarinnar og það hlýtur að vera krafa okkar að ráðherra málaflokksins, eða sá sem gegnir fyrir hann núna, sé viðstaddur.

Ég átti samtal við menntamálaráðherra í dag út af myrkraverkum hans við sameiningu framhaldsskóla og var það ágætt sem kom fram þar. Málið hefur þó heldur betur fengið annan blæ núna vegna þess að Hafnarfjarðarbær fékk Andra Árnason, þann virta lögmann, til að fara í gegnum þá sameiningu sem ráðherrann er að gera þar. Í niðurstöðum segir, með leyfi forseta:

„Í lögskýringargögnum með lögum nr. 92/2008, um framhaldsskóla, er gert ráð fyrir að framhaldsskóli verði aðeins lagður niður með samþykki Alþingis.“ — Tilvitnun lýkur því að ég hef ekki meiri tíma.

Virðulegi forseti. Þarf frekari vitnanna við? Ég vil biðja þann sem situr nú á forsetastóli að koma því til skila til yfirstjórnar þingsins að ég krefst þess að hæstv. menntamálaráðherra Illugi Gunnarsson komi til umræðu á morgun í sérstakri umræðu við mig og aðra um þau myrkraverk sem hann er að vinna úti um allt land. (Gripið fram í: Myrkraverk …)