144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:49]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Í ljósi þeirra tíðinda sem eru að koma hér varðandi sameiningu Iðnskólans í Hafnarfirði og Tækniskólans og álits um að þar sé ólögmætur gjörningur á ferð af hendi hæstv. menntamálaráðherra vil ég óska eftir því að lengd verði sérstök umræða sem ég hef óskað eftir við ráðherrann og verður haldin á morgun um miðstýrða styttingu framhaldsskólans, en gert er ráð fyrir hálftíma í þá umræðu, og að undir í þeirri umræðu verði að auki, til viðbótar við miðstýrða styttingu framhaldsskólans, sameining Iðnskólans í Hafnarfirði og Tækniskólans og aðförin að framhaldsskólum á landsbyggðinni.

Það er nú svo að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hefur verið lítið við þingið og hefur verið mikið erlendis, þrátt fyrir þau myrkraverk sem hafa verið unnin. Ég óska því mjög eindregið eftir því, og í samræmi við þá umræðu sem hefur átt sér stað, að umræðan verði klukkutími og öll þessi óhæfuverk verði þar undir.

(Forseti (ÓP): Forseti vill tilkynna að boðum hefur verið komið til hæstv. umhverfisráðherra og hæstv. forsætisráðherra um að nærveru þeirra sé óskað í þingsal.)