144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:56]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Páli Jóhanni Pálssyni fyrir að staðfesta það með tilvitnun að ráðuneytin telji þetta að minnsta kosti vera lagalega á gráu svæði, samanber það sem hann las upp úr áliti atvinnuvegaráðuneytisins. Þá kemur spurningin: Hvað á að njóta vafans? Það er ekki gott fyrir Alþingi, sjálfan löggjafann að vera beinlínis að störfum á lagalegu grásvæði og ættu þá ekki lögin að njóta vafans þegar Alþingi sjálft á í hlut, að það fari ekki að brjóta og vanvirða sín eigin lög?

Þegar við bætist að náttúran er á bak við, á hún þá ekki líka að njóta vafans? Það er tvöföld varúðarregla, tvöföld varúðarástæða sem ætti að tryggja það að mönnum detti ekki svona málatilbúnaður í hug.

Síðan vil ég spyrja hvort hæstv. forsætisráðherra, sem búið er að koma boðum til, gott og vel, en það var gert í gær og í gærkvöldi, gott ef ekki í fyrradag, en hann mætir ekki og þá þarf Alþingi að grípa til sinna ráða. Ef ráðherrann mætir ekki sem með réttmætum óskum er beðinn um að koma hingað til umræðu og gegna sínum þingskyldum (Forseti hringir.) þá tekur Alþingi til sinna ráða, tekur til dæmis viðkomandi mál af dagskrá eða bara hreyfir ekki við neinum (Forseti hringir.) stjórnarfrumvörpum fyrr en oddviti ríkisstjórnarinnar lætur svo lítið að mæta hér.

(Forseti (ÓP): Forseti vill koma því til hv. þingmanna að þeir reyni að virða tímamörk.)