144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:59]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Um fundarstjórnina er það að segja að árangurinn af því að hafa þetta mál á dagskrá dag eftir dag hefur auðvitað ekki verið neinn fyrir samfélagið en hann hefur verið býsna góður fyrir málið sjálft því að fundarstjórnin hefur verið býsna afhjúpandi. Ég held að það lýsi því best að hér eru ráðherrabekkirnir mér á báðar hendur auðir eftir nokkurra daga umræðu og stjórnarliðið hefur flúið, bæði þingflokkur Framsóknarflokksins og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins úr salnum og sjást hér ekki við umræðuna nema einn og einn maður á stangli, því það hafa stjórnarliðar að meiri hluta til allir áttað sig á að breytingartillagan er handónýt og ekki í samræmi við lög og mun fremur spilla þeim hagsmunum en styrkja þá sem verið er að reyna að beita sér fyrir, þ.e. hagsmunum virkjananna.