144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:01]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að mikilvægt sé að ræða skólamál í þinginu og skólastefnu, eins og hér kom fram. Ég held að það sé mjög þarft verkefni fyrir þingið. Ég velti því fyrir mér hvort þessi tími sé réttur, ég var svo sem ekki búinn að hugsa það. En ef við viljum fá þá umræðu fram er mjög mikilvægt að við sköpum það svigrúm sem til þarf svo hún geti orðið að veruleika.

Við höfum talað um það hér í þessum sal að við reynum þá að ná sátt og ljúka þessari umræðu sem fyrst. Það gerist með því að við setjumst við samningaborðið, ekki með því að kjósa um það. Við þurfum að gera það með samningum sem við getum öll sætt okkur sæmilega við og ég held að það sé í farvatninu að við gerum það ef vilji er til.