144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:03]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég ætla að taka undir með síðasta ræðumanni. Það sem ég var ekki búinn að gera mér grein fyrir var að verið væri að einkavæða Iðnskólann í Hafnarfirði. Hitt eru dæmi sem ég hef tekið úr kjördæmi mínu og öðrum kjördæmum og vil ég þess vegna taka undir með hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni sem ræðir skólamálin og hvort ekki sé brýnt að fara í þetta mál.

Mig langar að bæta við, því að ég hef talað mest um sameiningaráform menntamálaráðherra í mínu kjördæmi og á mínu svæði, og nefna eitt dæmi í viðbót. Ég vil spyrja hv. þm. Ásmund Friðriksson hvað honum finnst um að í áformum og vinnuáætlunum menntamálaráðuneytisins sé gert ráð fyrir að Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum verði sameinaður skólanum á Selfossi. Þetta er álíka vitlaust að mínu mati og að sameina Menntaskólann á Ísafirði og Fjölbrautaskólann á Sauðárkróki.

Það er mest talað um það sem verið er að gera á Norðausturlandi núna. Þetta er áfangi 2 eða 3. (Forseti hringir.) Hvað finnst hv. þingmanni um áform hæstv. menntamálaráðherra, sem okkur bráðvantar að fá hingað til langrar umræðu um það myrkraverk sem hann er að vinna?