144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:32]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og fagna því að vera hér í málefnalegri umræðu. Það er mikið vísað í skjal frá umhverfisráðuneytinu. Ég vil vísa í það líka, en þar segir:

„Að mati ráðuneytisins getur þingið, að teknu tilliti til laga nr. 48/2011, lagt til breytingar á flokkun þeirra virkjunarkosta sem tillagan tekur til, enda hafi kostirnir fengið umfjöllun verkefnisstjórnar í samræmi við ákvæði laganna.“

Hér er umsögn frá Orkustofnun:

„Tillagan er í samræmi við faglega niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar og upphaflega þingsályktunartillögu. Þar var þremur virkjunarkostum í vatnsafli á Suðurlandi, þ.e. Urriðafossvirkjun, Hvammsvirkjun og Holtavirkjunum, öllum í Þjórsá, raðað í orkunýtingarflokk, enda var um að ræða virkjunarkosti sem voru meðal þeirra hagkvæmustu og best rannsökuðu. Þessir kostir voru hins vegar fluttir úr orkunýtingarflokki í biðflokk í meðförum Alþingis, árið 2013, án þess að faglegum forsendum sem lágu til grundvallar mati faghópa væri hnekkt.“ (Forseti hringir.)

Hvað segir hv. þingmaður um þessa aðgerð?