144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:33]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég segi það um þessar umsagnir annars vegar að þær eru ekki í samræmi við lýsingu hv. þingmanns og félaga hans í meiri hlutanum á afgreiðslu mála á síðasta kjörtímabili, því í nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar, sem hv. þingmaður stendur að, er skýrt tekið fram að sú afgreiðsla hafi verið í fullu samræmi við gildandi lög, hafi byggt á bráðabirgðaákvæði laganna og byggt á efnislegum rökum.

Hitt sem ég ætla að segja um þetta er: Hv. þingmaður passaði sig á að nefna ekki þá staðreynd að umhverfisráðuneytið segir með algjörlega skýrum hætti, ráðuneyti umhverfismála, að það standist ekki lögin að gera tillögu um Skrokköldu.

Ég vil spyrja hv. þingmann á móti: Af hverju kaus hæstv. umhverfisráðherra eftir mikla yfirlegu ekki að gera (Forseti hringir.) tillögu um neitt annað en Hvammsvirkjun? Af hverju lagði hæstv. þáverandi ráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson ekki neitt annað til?